Ákvörðun Breta um að ganga út úr Evrópusambandinu hefur haft mikil áhrif hugarfar heimsbyggðarinnar. Hagfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins virðast lítið hrifnir af úrslitum kosninganna, ef marka má spá þeirra um þróun heimsbúskapsins.

AGS spáir 3,1% hagvexti á heimsvísu. Spáin er 0,1% lægri en spá þeirra frá því í apríl, og 0,3% lægri en spá þeirra frá því í janúar. Í júlímánuði 2015 spáðu þeir 3,7% hagvexti árið 2016. AGS spáir 3,4% hagvexti árið 2017.

Maury Obstfeld, sem stýrir greiningardeild AGS, hafði verið bjartsýnni í byrjun árs. Traust hans mátti rekja til stöðugleika á hráefnamörkuðum og stöðu efnahagsmála í Japan og Evrópu. Ákvörðun Breta virðist aftur á móti hafa dregið úr þeirri bjartsýni.

Hafa mestar áhyggjur af Bretum

Sérfræðingarnir hafa mestar áhyggjur af Bretlandi. AGS spáir 1,7% hagvexti í konungsveldinu þetta árið, en ætla að fylgjast grant með þróun mála. Fjármálageirinn spilar þar stórt hlutverk. Flest af stærstu fjármálafyrirtækjum heimsins eru með starfsemi í London. Sum þessara fyrirtækja hafa hótað að flytja starfsemi sína til Frankfurt, París, Dublin og Lúxemborg. Kæmi til brottflutnings, hefði það óhjákvæmilega mikil áhrif á breskan efnahag.

Kína spáð mestum vexti

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að evrusvæðið muni einungis vaxa um 1,4% næsta árið. Spámennirnir telja að hagkerfi Bandaríkjanna muni vaxa um 2,2%, en horfurnar voru 0,2% hærri í apríl. Kínverjar eru í mikilli sókn og er hagkerfi þeirra spáð miklum vexti. AGS telur að Kínverska hagkerfið muni vaxa um 6,6% í ár, og um 6,2% árið 2017.

Fulltrúar stofnunarinnar telja Brasilíu vaxa um 0,5% og Rússland um 0,1%. Nígeríska hagkerfið hefur dregist saman um 1,8% á þessu ári, en AGS spáði 2,3% vexti þar í apríl.

Horfur Íslands virðast með besta móti, en greiningardeild Arion banka spáir 4,9% hagvexti í ár.