Leiðandi hagvísir Analytica, sem gefur vísbendingar um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum, lækkaði í desember. Hagvísirinn hefur nú lækkað 5 mánuði í röð miðað við endurskoðuð gildi hans.

„Horfur virðast á hagvexti í takt við langtímaleitni á fyrri árshelmingi 2023 en eftir það sé hætta á minni vexti eða samdrætti landsframleiðslu. Vísbendingar um þetta virðast að styrkjast,“ segir í frétt Analytica.

Þrír af sex undirliðum hagvísisins lækkuðu á milli mánaða en stærsta framlag til lækkunar er vegna samdráttar í aflamagni og lækkun hlutabréfaverðs.

Áfram er umtalsverð óvissa tengd stríðinu í Úkraínu. Framvindan á fjármálamarkaði er einnig meðal óvissuþátta vegna verðbólgu og aðgerða ýmissa seðlabanka í þá veru að minnka peningalega þenslu.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um vendipunkta í efnahagsumsvifum að sex mánuðum liðnum. Hagvísirinn er er samansettur af eftirfarandi sex liðum: aflamagn, debetkortavelta, ferðamannafjöldi, heimsvísitala hlutabréfa, innflutningi og væntingavísitölu Gallup.

Einstök gildi hagvísisins síðustu mánaða voru endurskoðuð niður á við. Analytica segir það vera afleiðingu nýrra gilda fyrir undirþætti og þeirrar aðferðafræði sem notuð er við útreikninginn, m.a. við endurmat á langtímaleitni.