Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði um 0,4% í mars en um er að ræða sjöunda hækkunarmánuðinn í röð. Hagvísirinn bendir til aukins hagvaxtar á fyrri árshelmingi.

Undanfarna mánuði hafa fjölgun ferðamanna og aukning fiskafla hafi verið aðaldrifkraftarnir að baki hækkun hagvísisins. Nú eru hins vegar sterkari vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar.

Er þar bent á aukinn innflutning og kortaveltu auk þess sem væntingavísitala Gallup hefur hækkað marktækt undanfarið. Auk óvissu á vinnumarkaði hérlendis þá eru áfram áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.