Leiðandi hagvísir Analytica (e. Composite Leading Indicator) hækkaði um 0,2% í júní og hefur gildi hagvísisins ekki verið hærra í uppsveiflu síðan 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Þar segir að hækkun hagvísisins nú skýrist af vexti debetkortaveltu og auknum fiskafla. Áfram séu vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar og mikil aukning sé í komum ferðamanna.

„Sem fyrr eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum. Þá eru áhrif verkfalla sl. mánuði ekki enn að fullu ljós,“ segir í tilkynningunni.

Leiðandi hagvísir Analytica er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum.  Hugmyndin að baki vísitölunni er að framleiðsla hafi aðdraganda og er vísitalan reiknuð á grundvelli þátta sem mælast í upphafi framleiðsluferilsins og/eða veita vísbendingar um eftirspurn eftir vörum og þjónustu.