Leiðandi hagvísir Analytica var óbreyttur í maí í kjölfar 0,1% samdráttar í apríl. Hagvísirinn bendir enn til hagvaxtar yfir langtímaleitni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Analytica.

Þar segir að óbreyttur hagvísir skýrist að mestu af lækkun á væntingavísitölu gagnvart langtímaleitni. Áfram séu vísbendingar um vöxt innlendrar eftirspurnar. Þar megi benda á aukinn innflutning og kortaveltu.

„Komum ferðamanna fjölgaði á ný í maí og er vöxturinn umtalsverður á þeim vettvangi. Áfram eru áhættuþættir í ytra umhverfi sem ógnað gætu hagvexti einkum tengdir stöðunni í alþjóðastjórnmálum. Þá eru áhrif verkfallanna að undanförnu ekki enn að fullu ljós,“ segir í tilkynningunni.

Hagvísirinn er vísitala sem gefur vísbendingu um efnahagsumsvif að sex mánuðum liðnum. Það er hlutverk vísitölunnar að veita skýra sýn á efnahagshorfur og vara tímanlega við viðsnúningi í efnahagsumsvifum.