Áætlaður niðurskurður í fjárfestingum hjá Orkuveitu Reykjavíkur á næsta ári hefur bein áhrif á hagvöxt. Samkvæmt útreikningum IFS Greiningar eru bein áhrif 0,4 prósentustig til lækkunar í gegnum fjárfestingar. Til viðbótar koma einnig til óbein áhrif í gegnum einkanneyslu með töf.

Fjallað er um málið í Morgunpósti IFS. Þar segir að í áætlun OR, sem kynnt var í gær, felst einnig hækkun á gjaldskrá sem hefur bein áhrif á verðbólgu og þar með verðtryggðar skuldir heimila og fyrirtækja í landinu.

Stjórn og eigendur Orkuveitu Reykjavíkur (OR) samþykktu í gær aðgerðaáætlun vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins. Vandinn er til kominn vegna mikillar skuldsetningar í erlendum gjaldmiðlum meðan tekjur eru að mestu leyti í íslenskum krónum. Nú er svo komið að fyrirtækið er ófært um að fjármagna sig og utanaðkomandi aðstoðar er þörf ásamt miklum niðurskurði.