Landsframleiðslan á 1. ársfjórðungi þessa árs jókst að raungildi um 1,7% frá sama ársfjórðungi fyrra árs. Þetta kemur fram á vef Hagstofunnar .

Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, saman um 2,8%. Vöxtur einkaneyslu og samneyslu mældist jafn, eða 2,8%, en þrátt fyrir umtalsverðan vöxt í íbúðafjárfestingu dróst heildarfjármunamyndun saman um 9,4%.

Samkvæmt birgðaskýrslum Hagstofunnar drógust birgðir á 1. ársfjórðungi 2019 saman um tæplega 8 milljarða króna á verðlagi ársins, sem skýrir talsverð neikvæð áhrif birgðabreytinga á hagvöxt, en aukning mældist í birgðum á sama tímabili fyrra árs.

Þar sem útflutningur jókst meira en innflutningur á 1. ársfjórðungi 2019 er framlag utanríkisviðskipta í heild til hagvaxtar jákvætt. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var 33,2 milljarðar króna á tímabilinu.