Landsframleiðsla er talin hafa vaxið um 2¾% að raungildi á 2. fjórðungi þessa
árs frá sama tíma árið áður, að því er fram kemur í frétt frá Hagstofunni. Þjóðarútgjöld jukust hins vegar talsvert meira, eða um 7% og leiddi það til áframhaldandi halla í viðskiptum við útlönd.

Í frétt frá Hagstofunni segir að annan fjórðunginn í röð dróst útflutningur saman, nú um 6%, en verulega hægði á vexti innflutnings. Hann jókst um 6¼% frá sama fjórðungi fyrra árs en hafði vaxið um meira en 20% undanfarna sex fjórðunga. Samhliða þessu dró mikið úr vexti í einkaneyslu og fjárfestingu. Árstíðaleiðrétt landsframleiðsla sýnir 2½% vöxt fyrir sama tímabil en 2% vöxt frá næstliðnum ársfjórðungi.

Einkaneysla er nú talin hafa vaxið um 4½% á 2. fjórðungi þessa árs frá sama tíma árið áður. Aukningin hefur ekki verið minna frá því á 4. fjórðungi ársins 2002.

Hægt hefur verulega á vexti í ýmsum liðum einkaneyslunnar, svo sem í matvörum, húsbúnaði og innfluttri þjónustu. Enn er þó talsverður vöxtur í flestum liðum innfluttra neysluvara annarra en kaupa á ökutækjum en þar kemur fram tæplega 20% samdráttur. Fjárfesting jókst um 6½% í kjölfar 36½% vaxtar á 1. fjórðungi ársins og 37½% vaxtar á árinu 2005 í heild. Þar af er áætlað að á 2. fjórðungi ársins hafi fjárfesting atvinnuveganna aukist um 5¾% frá sama fjórðungi fyrra árs sem er töluvert minni vöxtur en undanfarin ár en gera má ráð fyrir að fjárfesting tengd stóriðju- og orkufrekum iðnaði hafi nú náð hámarki. Áfram var mikill vöxtur í íbúðarfjárfestingu, 11%, en fjárfesting hins opinbera stóð hins vegar í stað. Samneysla óx
um 2¾% sem er lítið eitt minni vöxtur en verið hefur síðustu fjóra fjórðunga.