Landsframleiðsla á fyrstu níu mánuðum ársins 2013 jókst um 3,1% að raungildi borið saman við fyrstu níu mánuði ársins 2012. Þetta sýna tölur Hagstofu Íslands.

Á sama tíma drógust þjóðarútgjöld, sem eru samtala neyslu og fjárfestingar, saman um 0,5%. Einkaneysla jókst um 1,3% og samneysla um 1,4%. Fjárfesting dróst hins vegar saman um 7,1%. Útflutningur jókst um 4,2% á sama tíma og innflutningur dróst saman um 1,9%. Hagvöxtur fyrstu níu mánuði ársins er því drifinn áfram af breytingum í utanríkisverslun.

Landsframleiðsla á 3. ársfjórðungi 2013, án árstíðaleiðréttingar, jókst um 4,9% frá sama ársfjórðungi fyrra árs en árstíðaleiðrétt landsframleiðsla jókst um 6,1% frá 2. ársfjórðungi 2013.