Landsframleiðsla jókst að raungildi um 3,5% á árinu 2013. Hagvöxtur hefur ekki verið meiri frá árinu 2007 og hefur landsframleiðsla ekki verið hærri að raungildi frá árinu 2008. Hagstofan greinir frá þessu.

Fram kemur að utanríkisverslun dragi hagvöxtinn áfram, en þjóðarútgjöld á árinu 2013 drógust lítillega saman eða um 0,3%. Einkaneysla og samneysla jukust hvor um sig um 0,8% en fjárfesting dróst saman um 2,2%.

Útflutningur jókst um 6,9%, en á sama tíma jókst innflutningur um 0,4% svo verulegur afgangur varð af vöru- og þjónustuviðskiptum á liðnu ári, eða 156 milljarðar króna.

Viðskiptakjör versnuðu um 1,1% á árinu 2013 en mikill viðsnúningur á viðskiptajöfnuði varð til þess að þjóðartekjur jukust mun meira en sem nam vexti landsframleiðslu, eða um 11,2%.