Hagvöxtur var 3,8% en ekki 4,8% árið 2018 samkvæmt uppfærður tölum Hagstofu Íslands. Uppfærslan var birt samhliða birtingu Hagstofunnar á hagvexti síðasta árs , sem talinn er hafa verið 1,9% árið 2019, sem er töluvert hærra en hagspár höfðu gert ráð fyrir.

Hagstofan segir að nýjar mælingar á fjármunamyndun atvinnuveganna sem byggja á gögnum frá Skattinum bendi til að sú stærð hafi dregist saman um 11,5% árið 2018 en ekki 4,1% eins og áður hafði verið talið. Því lækkar hagvöxtur ársins 2018 úr 4,8% í 3,8%. Þá lækkar mat á landsframleiðslu árið 2017 um 0,1 prósentustig, úr 4,5% í 4,4% en landsframleiðsla árið 2016 er enn talin hafa verið 6,6%.

„Gögn um fjármunamyndun atvinnuveganna byggja að stærstum hluta á skráðum eignabreytingum samkvæmt skattframtölum fyrirtækja en þær upplýsingar eru ekki tiltækar fyrr en nokkru eftir að viðmiðunarárinu lýkur. Fram að þeim tíma eru stærðir áætlaðar, meðal annars með hliðsjón af upplýsingum veltu og innflutning,“ segir á vef Hagstofunnar.

Sjá einnig: Áratugum á eftir nágrannaþjóðum

Hagstofan bendir á að almenna reglan við endurskoðun þjóðhagsreikninga sé að við útgáfu árstalna, í febrúar og ágúst, séu niðurstöður þriggja ára þar á undan séu opnar til endurskoðunar. Eldri niðurstöður teljast endanlegar, en þó geti tímaraðir lengra aftur í tímann verið endurskoðaðar ef nauðsynlegt reynist, t.d. vegna breyttrar aðferðafræði.

Leiðréttu hagvöxt tvisvar í september

Athygli vakti í september þegar Hagstofan þurfti tvívegis á skömmu millibili að leiðrétta tölu um hagvöxt . Fyrst breytti Hagstofan mati á hagvexti á fyrsta ársfjórðungi úr 1,7% hagvexti í 0,9% samdrátt og svo hækkaði Hagstofan mat á hagvexti á öðrum ársfjórðungi úr 1,4% í 2,7%.

Í fyrra skiptið var ástæðan að íbúðafjárfesting var ofmetin þar sem gögn frá Þjóðskrá Íslands hefðu náð langt inn í apríl en áttu aðeins að ná út marsmánuð. Í síðara skiptið þurfti að leiðrétta tölur um fjármunamyndun hins opinbera og atvinnuvegafjárfestingu vegna fjármunamyndunar í skipum og flugvélum.

Sjá einnig: „Tölfærði en ekki heilagur sannleikur"

Þá var haft eftir Birni Rúnari Björnssyni, sviðsstjóra efnahagssviðs hjá Hagstofu Íslands að vilji væri til að gera betur. „Það er mjög mikilvægt að menn átti sig á því að þetta er tölfræði en ekki heilagur sannleikur. Það er alltaf undirliggjandi mat í öllum þessum stærðum. Þær eru þannig hannaðar að það er í þeim óvissa. Sú óvissa getur verið vegna gagna, aðferðafræðilegrar ónákvæmni, mannlegra mistaka og svo framvegis. Auðvitað viljum við reyna að minnka þessa óvissu eins mikið og mögulegt er,“ sagði Björn Rúnar.

Björn Rúnar benti á í viðtali við Viðskiptablaðið í desember að Íslendingum tækist ekki að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar í gegnum EES-samninginn á sviði þjóðhagsreikningi. Þar væri brýnast að efla svokallað framleiðsluuppgjör landsframleiðslunnar.