Hagvöxtur var 5% á fyrstu þremur mánuðum ársins, miðað við sama tíma fyrir ári, á mælikvarða landsframleiðslu. Þetta kemur fram kemur í frétt frá Hagstofunni. Vegna mikils vaxtar í innflutningi, 19,5%, og samdráttar í útflutningi, 6,4%, hafa þjóðarútgjöldin aftur á móti vaxið talsvert meira eða um 13,7%.

Í þjóðhagsreikningi Hagstofunnar kemur fram að einkaneysla hafi vaxið um 12,6% á fyrsta ársfjórðungi og er það heldur meiri aukning en á fjórðungnum þar á undan en þá óx einkaneyslan um 10,6%. Meginhluta þessa vaxtar má rekja til kaupa á innfluttum vörum og þjónustu. Fjárfesting jókst um 36,6% eftir að hafa vaxið um 35,4% á síðasta fjórðungi liðins árs. Fjárfesting í virkjunum og stóriðju vegur þar þyngst. Samneyslan óx um 3,8% sem er nánast sami vöxtur og verið hefur síðustu tvo fjórðunga þar á undan.