Í vikunni birti Hagstofa Íslands tölur um hagvöxt á þriðja ársfjórðungi þessa árs. Hagvöxtur mældist 7,3% miðað við sama tímabil í fyrra. Fram kom að útflutningur hefði verið helsti drifkraftur hagvaxtar en að honum frátöldum hefði einkaneyslan mest áhrif.

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, benti á það í bréfi til samstarfsfólks síns að einkaneysla hefði einungis þrisvar sinnum verið meiri frá upphafi mælinga sem endurspeglaðist í miklum innflutningsvexti. Þannig hefði einkaneysla síðasta ársfjórðungs svipað til jólavertíðar fyrir heimsfaraldurinn.

„Útflutningsvöxturinn reyndist þó meiri en innflutningsvöxturinn, enda lögðu 654 þúsund ferðamenn leið sína til landsins á þriðja ársfjórðungi, svo framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var jákvætt. Fjárfesting jókst hins vegar aðeins um 2% milli ára og hefðbundin atvinnuvegafjárfesting dróst saman – sem er viðvörunarmerki og ákveðið áhyggjuefni ef þróunin er vísir að framhaldinu – svo hagvaxtarsamsetning var ekki alveg par excellence, þó hún hafi farið nálægt því,“ segir Erna Björg í bréfinu.

Þá nefnir hún að sterkar niðurstöður þjóðhagsreikninga síðasta ársfjórðungs muni eflaust vekja athygli peningastefnunefndarinnar, þó þær muni ekki endilega ríða baggamuninn fyrir næstu vaxtaákvörðun.

„Slíkt vald er í höndum verðbólgunnar, verðbólguvæntinga og annarra hátíðnigagna svo sem kortaveltu heimilanna.“

Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í morgun.

Niðurstöður þjóðhagsreikninga á 3F

Verg landsframleiðsla 7,3%
Einkaneysla 7,2%
Útflutningur vöru og þjónustu 22,9%
Innflutningur vöru og þjónustu 18,0%
– magnbreyting frá sama tímabili fyrra árs