Hagvöxtur mældist 7,3% á þriðja ársfjórðungi samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar sem birtar voru í morgun.

Helsti drifkraftur hagvaxtarins var útflutningur, en að honum frátöldum hafði einkaneysla mest áhrif.

Í frétt fjármálaráðuneytisins á vef Stjórnarráðsins er vakin athygli á því að hagvöxturinn hérlendis er talsvert meiri en í samanburðarríkjum Íslands.

Þá hefur landsframleiðsla á föstu verðlagi ekki áður mælst meiri og munar þar nær 4% frá sama tíma 2019. Landsframleiðsla á mann hefur aftur á móti ekki náð sama marki og þá.

Hægir á vexti einkaneyslu

Þrátt fyrir jákvætt framlag einkaneyslu til hagvaxtar tók að hægja á vexti einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi þegar hún óx um 7,2% að raunvirði en á fyrri fjórðungum ársins nam vöxturinn 10-15%.

Minni vöxtur var á fjórðungnum í til dæmis ökutækjakaupum en mikill vöxtur var áfram í útgjöldum Íslendinga erlendis. Útlit er fyrir áframhaldandi sterkan neysluvöxt á fjórða ársfjórðungi, að því er kemur fram í frétt fjármálaráðuneytisins.