Hagvöxtur á Íslandi er mikill í alþjóðlegum samanburði, segir greiningardeild Íslandsbanka.

Greiningardeild Íslandsbanka spáir 4,3% hagvexti í ár en spáð er 2,7% meðalvexti í OECD-ríkjum.

Í endurskoðaðri þjóðhagsspá reiknar greiningardeild Íslandsbanka með að hagvöxtur hafi verið 5,2% á síðasta ári. Áætlun OECD gerir hins vegar ráð fyrir að hagvöxtur í aðildarríkjunum hafi verið 2,7% að jafnaði árið 2005.

Á Evrusvæði telur OECD að vöxtur hafi verið 1,4% í fyrra, en 3,6% í Bandaríkjunum.

Á árunum 1995-2004 var hagvöxtur að meðaltali 3,7% á Íslandi, 3,2% í Bandaríkjunum og 2,1% á Evrusvæði. Meðalvöxtur OECD-ríkja á þessu tímabili var 2,7%.

Árið 2007 spáir greiningardeildin stöðnun í landsframleiðslu, meðan OECD spáir tæplega 3% vexti að meðaltali í aðildarríkjunum.

Vegna smæðar hagkerfisins eru hagsveiflur tíðari en hjá þeim löndum sem við berum okkur saman við, segir greiningardeildin.