Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)

Sá 3,3% hagvöxtur sem mældist á síðasta ári var ekki bara meiri en menn gerðu ráð fyrir. Hann er líka hagvöxtur af „bestu gerð“. Greining Íslandsbanka vekur athygli á þessu í dag. Hagvöxturinn er að mestu leyti til kominn vegna aukningar í utanríkisviðskiptum. Í Morgunkorni Greiningar segir að þetta sé ólíkt því sem var fyrir hrun þegar hagvöxtur var að stórum hluta tekinn að láni og gríðarlegur halli var á utanríkisviðskiptum.

„Í ljósi þess að hagvöxtur er nú talinn hafa verið nokkru meiri á síðasta ári en áður var spáð má einnig gera ráð fyrir að framleiðsluslakinn hafi minnkað meira en áður var áætlað. Í sinni nýjustu spá reiknaði SÍ með að slakinn á síðasta ári hafi verið tæplega 1%, en m.v. nýbirtar tölur er ljóst að hann er nær ½%. Rifja má upp að peningastefnunefnd SÍ hefur sagt í yfirlýsingum sínum undanfarið að eftir því sem slakinn hverfur úr hagkerfinu er rétt að slakinn hverfi einnig úr peningastjórnuninni, þ.e. að raunstýrivexti hækki,“ segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Íslandsbanki bendir á að fjárfesting hafi dregist minna saman í fyrra en SÍ reiknaði með, eða um 3,4% í stað 4,3%. Þennan samdrátt fjárfestingar má fyrst og fremst rekja til minni innflutnings skipa og flugvéla sem dregur einnig úr innflutningi.