Danska hagkerfið óx um 1,0% frá fyrsta ársfjórðungi til annars ársfjórðung og var það talsvert umfram spár.  Fyrri tölur sýndu samdrátt á milli þessara tvegjja ársfjórðunga. Hagvöxtur var 2.0% á milli annars ársfjórðungs í ár og sama ársfjórðungs í fyrra. Samdráttur var á fjórða ársfjórðungi í fyrra og fyrsta ársfjórðungi í ár og var því búið að úrskurða að tæknilega væri samdráttur kominn í danskt hagkerfi að nýju.

Í greiningarefni Íslandsbanka kemur fram að Danmörk sé umfangsmikið í utanríkisviðskiptum Íslendinga. Var Danmörk stærsta viðskiptalandið í útflutningi á þjónustu Íslands á síðasta ári. Var sala á þjónustu þangað 11,3% af útfluttri þjónustu og var 17,2% af þjónustukaupum Íslendinga á síðasta ári við Danmörk. Hlutdeild Danmerkur í vöruútflutningi Íslands í fyrra var 2,7% og 7,1% í vöruinnflutningi. Það skiptir því nokkru máli um þróun efnahagsmála hér á landi með hvaða hætti danska hagkerfið þróast.

Danska hagkerfið er mjög útflutningsdrifið og gangur mála í heimsbúskapnum hefur því talsverð áhrif þar. Hægt hefur á hagvexti á heimsvísu á árinu og má reikna með því að það dragi úr vexti danska hagkerfisins. Í því ljósi er hagvöxtur upp á 1,8% þar í landi á fyrri helmingi ársins nokkuð góð niðurstaða. Jókst útflutningur um 0,2% á örðum ársfjórðungi frá þeim fyrsta og um 8,7% í samanburði við annan ársfjórðung í fyrra. Framvindan í skuldavanda ríkja heims mun ákvarða hvort framundan sé nýtt samdráttarskeið í Danmörk eða ekki. Þetta kemur fram í efni Greiningar Íslandsbanka.