Talið er að hagvöxtur næstu missera verði að mestu drifinn áfram af vexti einkaneyslu og fjárfestingu. Endurskipulagning lána heimila, nýgerðir kjarasamningar og útgreiðsla séreignarsparnaðar ásamt endurgreiðslu vaxta hefur stutt við vöxt einkaneyslunnar sem jókst um 4,4% á fyrstu 9 mánuðum ársins frá sama tíma árið áður.

Þetta kemur fram í nýju riti Seðlabankans um fjármálastöðugleika sem birt var í morgun.

Þar kemur fram að efnahagsbati hafi hafist um mitt síðasta ár er landsframleiðslan tók að aukast á ný milli fjórðunga. Hagvöxtur mældist 3,7% á fyrstu 9 mánuðum ársins samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Þá segir einnig að nýir hagvísar bendi til þess að einkaneyslan hafi haldið áfram að vaxa. Korta- og dagvöruvelta hefur t.d. haldið áfram að aukast, atvinna hefur aukist og kaupmáttur launa og húsnæðisverð hækkað.

Í spá Seðlabankans er gert ráð fyrir áframhaldandi vexti fjárfestingar sem drifinn er áfram af atvinnuvegafjárfestingu og fjárfestingu í íbúðarhúsnæði, en fjárfesting hins opinbera dragist áfram saman.

© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)