Greiningardeild Arion banka spáir 2,9% hagvexti í ár, 3,9% á því næsta og 3,5% árið 2014. Hagvöxturinn er drifinn áfram af þjóðarútgjöldum og einskiptisaðgerðir hafa mikil áhrif á einkaneysluna, líkt og gengislánadómar og úttekt séreignasparnaðar.

Áramótablað  Kristrún Mjöll Frosadóttir
Áramótablað Kristrún Mjöll Frosadóttir
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)
Þetta kom fram í máli Kristrúnar Mjallar Frostadóttur, hagfræðings í greiningardeild Arion banka, í dag. Deildin kynnti hagspá sína í höfuðstöðvum bankans. Hún sagði sagði vöxtinn keyrðan áfram af einkaneyslu og fjárfestingu. Gert er ráð fyrir áhrifum af ýmsum fjárfestingum, svo sem kísilverksmiðju í Helguvík og Búðarhálsvirkjun. Greiningardeildin gerir ráð fyrir 12% aukningu fjárfestinga á ári á spátímanum. Gangi sú spá eftir fer fjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu yfir 50 ára lágmark atvinnufjárfestinga á Íslandi.

Kristrún tók fram að greiningardeildin sé bjartsýn í þessum efnum og þar geti ýmislegt breyst. Kristrún sagði áhrif stórra atvinnufjárfestinga geta orðið mikil, þar sem grunnur þeirra í dag sé mjög lágur. Þannig þarf lítið út af að bregða til þess að hafa áhrif á niðurstöður. Sama gildi um spá um einkaneyslu á tímabilinu. Þar spáir deildin um 9% raunbreytingu á árunum 2012 til 2014 en ef útgreiðslur vegna gengislána og úttektir á séreignasparnaði eru teknar úr jöfnunni nemur raunbreytingin rétt rúmlega 5%.

Spáð er að verðbólga haldist há út tímabilið vegna veikara gengis og hækkana á launum og fasteignaverði. Spáin gerir ráð fyrir 6 til 7 prósenta verðbólgu á spátímanum. Kristrún sagði verðbólguna vega að kaupmætti landsmanna og velti því upp fyrir gesti hvort rétt sé að auka peningalegt aðhald með hækkun stýrivaxta við slíkt ástand.

Að mati greiningardeildar þrífst hagvöxturinn í skjóli gjaldeyrishafta og einskiptisaðgerða. Hann verði drifinn áfram af uppsafnaðri fjárfestingarþörf auk einskiptiskostnaðar. Kristrún sagði hagvöxt ekki mögulegan fyrr en efnahagreikninga heimila og fyrirtækja verði komnir í lag.