Hagkerfi Japans dróst 2,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Samdrátturinn skýrist helst af því að japönsk útflutningsfyrirtæki áttu erfitt heimafyrir vegna gengisstyrkingar japanska jensins sem olli því að tekjur þeirra voru minni en alla jafna. Þá hægðu flóðin í Taílandi á framleiðslu fyrirtækjanna ofan á sölusamdrátt af völdum skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

AP-fréttastofan segir að stjórnmálamenn í Japan hafi bætt gráu ofan í svart með deilum um viðbót við fjárlög hins opinbera vegna náttúruhamfaranna í fyrra. Þessi ósamstaða þeirra hefur valdið því að allt endurreisnarstarf hefur tafist og fjárfestingar hins opinbera verið í biðstöðu.

Fjárveiting er engin smáræðis upphæð, jafnvirði 156 milljarða dala, 10 þúsund milljarða íslenskra króna.

AP-fréttastofan hefur eftir Masayuki Kichikawa, aðalhagfræðingi Bank of America Merrill Lynch, að óvíst sé um horfur útflutningsfyrirtækja, þó geti verið um tímabundið ástand að ræða. Allt fari þetta þó eftir gangi viðræðna um lausn skuldakreppunnar á evrusvæðinu.

1980 snýr aftur

Halli varð á viðskiptum Japana við útlönd í desember. Það eitt ætti að sýna við hvað Japanir eru að glíma en annað eins hefur ekki sést síðan árið 1980, að sögn AP-fréttastofunnar.