*

þriðjudagur, 26. maí 2020
Innlent 30. ágúst 2019 13:55

Hagvöxtur eftir fall Wow

Hagvöxtur mældist á 1,4% á öðrum ársfjórðungi. Niðurstaðan þykir óvænt enda fækkaði ferðamönnum um 19% á tímabilinu.

Ingvar Haraldsson
Haraldur Guðjónsson

Hagvöxtur mældist á 1,4% á öðrum ársfjórðungi sem nær frá apríl og út júní samkvæmt nýbirtum tölum frá Hagstofu Íslands. Tölurnar eru meðal fyrstu vísbendinga um gang hagkerfisins eftir fall Wow air sem var lýst gjaldþrota í lok mars.

Greiningardeild Arion banka segir tölurnar um landsframleiðslu á öðrum fjórðungi talsvert betri en þau þorðu að vona enda fækkaði ferðamönnum á tímabilinu um 19% milli ára. Engu síður sé ýmislegt í tölunum sem beri þess merki að hagkerfið sé að gefa eftir. „Sem dæmi drógust þjóðarútgjöld (samtala neyslu og fjárfestingar) saman um 1% á 2F og útflutningur dróst saman um 6,9%,“ segir greiningardeildin.

Samdráttur á fyrsta fjórðungi

Hagstofan uppfærði einnig hagtölur fyrir fyrsta ársfjórðung og komst að þeirri niðurstöðu að landsframleiðsla hafi dregist saman 0,9% á fyrstu þremur mánuðum ársins en hafi ekki vaxið um 1,7% líkt og Hagstofan hafði áður gefið út. Það skýrist helst af því að leiðrétta hafi þurft gögn um umfang byggingarframkvæmda.

Innflutningur stóra spurningamerkið

Athygli vekur að samdráttur í innflutningi vegur þungt í að viðhalda hagvexti.  „Áður en lengra er haldið er vert að rifja upp að verg landsframleiðsla er á einföldu máli virði allra fullunninna vara og þjónustu sem framleiddar eru á landinu á hverjum tíma. Innflutningur er þar af leiðandi dreginn frá vergri landsframleiðslu, þ.e.a.s. því meiri sem innflutningurinn er, því hærri upphæð er dregin frá landsframleiðslunni. Að þessu sinni dróst innflutningur verulega saman á milli ára, eða um 12,4%. Það að innflutningur hafi dregist mun meira saman en útflutningur þýðir að framlag utanríkisverslunar til landsframleiðslunnar var verulega jákvætt, og í þessu tilfelli nógu jákvætt til að knýja fram hagvöxt,“ útskýrir greiningardeildin sem segir að það kunni að vera að um hálfgerðan gervihagvöxt sé að ræða.

Einakneysla jókst um 2,2% sem er minnsti vöxtur einkaneyslu á einum fjórðung frá 2013, samneysla jókst um 3,1%, fjárfesting dróst saman um 14,2%, og útflutningur minnkaði um 6,9%.

„Hvað varðar innflutninginn þá var það fyrst og fremst innflutt þjónusta sem dróst mun meira saman en við væntum, eða um alls 16,8% milli ára. Eins og við höfum áður viðurkennt hefur þessi mikli samdráttur vafist fyrir okkur, þar sem hann er mun meiri en nemur samdrætti í rekstrarleigu flugvéla. Í máli aðalhagfræðings Seðlabankans sl. miðvikudag kom fram að lyfjageirinn ætti hér sök að máli, eitthvað sem við höfðum vissulega velt fyrir okkur. Sé það raunin er líklegra en ekki að um sé að ræða einskiptislið, þ.e.a.s. að svo mikill samdráttur í þjónustuinnflutningi eins og var á 2F sé ekki vísir að síðari helming ársins. Sé hins vegar ekki um einskiptislið að ræða gæti svo farið að innflutningssamdráttur ársins dygði til að halda hagvextinum við, og jafnvel fyrir ofan, núllið,“ segir greiningardeildin.

Hagspáin stendur — í bili

Arion banki segir þróun einstaka undirliða hagvaxtar sé með öðrum hætti en búist hafi verið við standi hagspá bankans fyrir árið sé óbreytt. Greiningardeildin gerir ráð fyrir tæplega 0,9% samdrætti landsframleiðslu á þessu ári. Hvort spáin rætist muni ráðast af því hve miklu leyti innflutningur á 2. ársfjórðungi hafi verið undantekning eða það sem koma skal. Ef þetta er það sem koma skal sé líklegt að landsframleiðsla verði nálægt því að vera óbreytt milli ára í stað þess að dragast saman.

Stikkorð: Arion banki hagspá Wow air