Efnahags- og framfarastofnun Evrópu (OECD) gaf út nýja hagspá í vikunni. Óhætt er að segja að margt í spánni geti talist jákvætt fyrir Ísland. Stofnunin spáir 3,1% hagvexti á þessu ári sem er töluvert hærra en spá Seðlabankans og Hagstofunnar en báðar stofnanir spá 2,6% hagvexti á árinu. Þá spáir OECD 4% verðbólgu hérlendis í lok árs.

Munurinn á spám íslensku stofnananna annars vegar og OECD hins vegar byggir helst á ólíkri sýn á fjárfestingar. OECD gera ráð fyrir meiri vexti fjárfestingar á árinu.

Í morgunkornum Íslandsbanka í dag er bent á að fá ríki geti státað af sama vexti og þeim sem OECD spá íslenska hagkerfinu á þessu ári. Horfurnar í alþjóða hagkerfinu eru að mati OECD enn háðar mikilli óvissu og koma hagkerfin misjafnlega undan löngum og ströngum vetri.

OECD spáir 0,1% samdrætti á evrusvæðinu á árinu, 2,4% vexti í Bandaríkjunum og 2% vexti í Japan. Að meðaltali er hagvöxtur í öllum ríkjum OECD talinn verða um 1,6% á þessu ári. Íslandi er eins og áður sagði spáð 3,1% hagvexti sem er töluvert hærra.