Hagvöxtur á evrusvæðinu var að meðaltali 0,3 prósent frá apríl og fram í júní samkvæmt opinberum tölum Eurostat. Það er minnkun frá fyrsta ársfjórðungi, þar sem hagvöxtur var 0,4 prósent.

Þá var verðbólga á evrusvæðinu 0,2 prósent í júlí líkt og hún var í júní. Jafnframt kom fram að hagvöxtur í Frakklandi var enginn á áðurnefndu tímabili.

Hagvöxtur í Þýskalandi var 0,4%, sem er bæting um 0,1% frá því á síðasta ársfjórðungi.

Ef allt Evrópusambandið er tekið, þá var hagvöxtur 0,4% sem er sá sami og á síðasta ársfjórðungi. Verðbólga var 0,1% í júlí, líkt og í júní.

Ellefu Evrópusambandslönd lentu í verðhjöðnun í síðasta mánuði og þar var Kýpur í aðalhlutverki með 2,4% verðhjöðnun.

Þrátt fyrir að tölur Frakklands hafi verið vonbrigði telur Michel Sapin fjármálaráðherra að hagkerfið sé enn á góðri leið með að ná markmiði ársins, sem er 1 prósent hagvöxtur.