Hagvöxtur í Þýskalandi mældist 0,7% á fyrsta fjórðungi ársins og meira en tvöfaldaðist miðað við sama tímabil árið á undan. Ríkisútgjöld og heimilisútgjöld Þjóðverja jukust meðan útflutningur dróst saman. Tölfræðistofnun þýska ríkisins greindi frá þessu í dag.

Hagvöxtur á tímabilinu var síðast svo mikill árið 2014. Vöxtur á evrusvæðinu í heild sinni var 0,6% og var Þýskaland því yfir meðaltali. Mildur vetur ýtti undir fjárfestingu í iðnaðargeiranum og öðrum stærri framleiðslutækjum, segir tölfræðistofnunin.

Einkaneysla hefur þá tekið við af viðskiptum sem helsti vaxtarhvati hagkerfisins. Atvinnuleysi er í lægstu lægðum, vextir eru lágir og laun hafa hækkað talsvert - sem ýtir allt undir frekari einkaneyslu. Hagfræðingar tengja neysluaukninguna við lága stýrivexti evrópska seðlabankans.