Neytendur og fyrirtæki í Bretlandi juku eyðslu sína á þriðja ársfjórðungi ársins. Jókst eyðsla heimila í landinu um 0,7% á ársfjórðungnum og fjárfestingar fyrirtækja jukust um 0,9% af því er hagstofa landsins hefur sagt í dag.

Heildarhagvöxturinn mældist 0,5% en verslun var sterkasti áhrifaþátturinn í viðskiptunum.

Erlendir ferðamenn nýta sér veikingu pundsins

Í annarri skýrslu, frá samtökum iðnaðarfyrirtækja í Bretlandi, kom fram að smásala hafði ekki vaxið jafnmikið í heilt ár í nóvembermánuði, eða síðan í september 2015. Náði vísitala þeirra 26 stigum, en líklegt er að erlendir ferðamenn hafi í auknum mæli nýtt sér veikngu pundsins.

Skýrsla hagstofunnar nær yfir fyrsta heila ársfjórðunginn síðan breska þjóðin ákvað að yfirgefa Evrópusambandið, en þrátt fyrir þessar niðurstöður hafa hagvaxtarspár fyrir landið verið færðar niður.

Kom hagfræðingum á óvart

Ríkisstofnun sem fylgjast á með fjárlagagerðinni skar niður væntingar sínar um hagvöxt í landinu á miðvikudag, úr 2,2% niður í 1,4%. Sagði hún að óvissan myndi leiða til þess að fyrirtæki myndu seinka fjárfestingum og veiking pundsins myndi ýta undir kostnaðinn við innflutning.

„Fjárfestingar fyrirtækja héldu sínu striki í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslunnar,“ sagði Darren Morgan hjá hagstofunni.„Til viðbótar við það, þá er aukinn neysla sem er tilkomin vegna aukinna tekna heimilanna, og sterk staða aðalþjónustufyrirtækja landsins, að stækka hagkerfið.“

Auknar fjárfestingar fyrirtækja komu mörgum hagfræðingum á óvart sem margir spáðu hnignun í kjölfar úrsagnar úr Evrópusambandinu.