Kínverska hagkerfið óx um 6,9% á síðasta ári eða um 0,2 prósentustig meira en árið áður en frá því er greint á vef The Wall Street Journal. Þetta er í fyrsta skipti í sjö ár sem hagvöxtur hefur verið meiri en árið áður en þróunin frá árinu 2011 hefur verið í átt til lækkandi hagvaxtar.

Miklar hækkanir á fasteignamarkaðinum og innviðauppbygging eiga stóran þátt í auknum hagvexti. Þrátt fyrir þennan viðsnúning í þróun hagvaxtar búast margir hagfræðingar við að hagvöxtur haldi áfram að minnka þar sem stjórnvöld í Peking reyna að draga úr áhættusömum fjárfestingum.

Í efnahagsáætlun fyrir 2018 sem stjórnvöld kynntu í desember er sleginn nýr tónn en stefnan er tekin á að auka gæði hagvaxtarins á sama tíma og dregið er úr áhættutöku í fjármálakerfinu, mengun og fátækt. Aðgerðir í þágu slíkra markmiða eru taldar líklegar til þess að draga úr hagvexti á næsta ári og spár gera ráð fyrir því að hann fari niður fyrir 6,5%.