Norska hagkerfið óx um 0,7% á öðrum ársfjórðungi þessa árs samkvæmt hagstofu landsins. Er hér átt við hagvöxt á meginlandi Noregs þar sem olíuvinnsla er undanskilin. Hagvöxtur á fyrstu 6 mánuðum ársins nam 1,3% og hefur ekki mælst hærri frá árinu 2012.

Samkvæmt frétt Financial Times eru tölurnar taldar gefa ríkisstjórn Ernu Solberg byr undir báða vængi en þingkosningar fara fram í landinu þann 11. september næstkomandi. Skoðanakannanir hafa bent til þess að núverandi ríkisstjórn muni ekki halda velli. Fylgi hennar hefur þó aukist töluvert í kjölfarið á lægra atvinnuleysi og auknum umsvifum í hagkerfi landsins.