Hagvöxtur jókst um 0,3% meðal evrulandanna á milli þriðja og fjórða ársfjórðungs 2013. Þetta kom fram í tilkynningu frá hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, undir lok dags í gær. Hagtölurnar taka tillit til 17 landa Evrópusambandsins, en Lettland varð hluti af evrusvæðinu í síðasta mánuði og er því átjánda Evrópulandið sem tekur upp evru.

Miðað við sama ársfjórðung í fyrra jókst árstíðaleiðrétt landsframleiðsla evrusvæðisins um 0,5% en vöxturinn á milli ára meðal 28 landa Evrópusambandsins mældist 1%. Hagvöxtur hefur nú mælst jákvæður á milli fjórðunga innan Evrópusambandsins allt frá fyrsta ársfjórðungi síðasta árs, en samdráttur hafði verið innan svæðisins frá miðju ári 2011.

Mestur var hagvöxturinn í Rúmeníu og Tékklandi meðal Evrópulandanna á tímabilinu, eða um 1,6% á milli fjórðunga. Mældist vöxturinn rúm 5% á milli ára á fjórðungnum í Rúmeníu, en samdrátturinn var mestur á Kýpur, eða -5,3%.