Hagvöxtur í Þýskalandi hefur nánast verið flatur, en hann nam einungis 0,4% á öðrum ársfjórðungi 2016. Frá þessu greinir fréttaveita Bloomberg. Hagvöxturinn fór þó örlítið fram úr væntingum hagfræðinga, sem höfðu spáð 0,2% hagvexti.

Vöxt hagkerfisins má meðal annars rekja til útflutnings og einkaneyslu. Fjárfesting í byggingar- og framleiðslugeiranum hefur dregist saman.

Evrópa er í miklu óvissuástandi, bæði pólitísku og efnahagslegu. Seðlabanki Evrópu hefur ekki náð að knýja fram þá örvun sem ætlast var til. Bankinn hefur meira að segja ráðist í kaup á fyrirtækjaskuldabréfum til þess að ýta undir lántöku og fjárfestingu.

Hagvöxtur á evrusvæðinu nam einungis 0,3% á öðrum fjórðungi þessa árs, sem er 0,3% lakari hagvöxtur en á fyrsta ársfjórðungi ársins.