Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 2,6% á öðrum ársfjórðungi, en spár hagfræðinga höfðu gert ráð fyrir 2,9% vexti á fjórðungnum, segir Greiningardeild Glitnis.

Vöxtur á fyrsta ársfjórðungi mældist 5,6% og er þetta því töluverð lækkun á milli fjórðunga. Lækkunina má aðallega rekja til minni umsvifa á fasteignamarkaði. Það sem hins vegar hafði óvænt áhrif er lækkun á orkukostnaði. Meðalspáin fyrir hagvöxt í Bandaríkjunum á árinu 2006 er 3,4%, segir greiningardeildin.

Brentolía hefur lækkað um 17% frá því í byrjun júlí. Lækkun á olíuverði hefur jákvæð áhrif á verðbólgu í Bandaríkjunum. Sérfræðingar halda því nú fram að Seðlabanki Bandaríkjanna hafi gert rétt í því að stöðva vaxtahækkanir í bili og að líkurnar minnki á því að þeir verði hækkaðir frekar í bráð. Langtímaspár um verðbólgu í Bandaríkjunum hljóða að meðaltali upp á 2% á ársgrundvelli næstu fimm árin.

Verðbólgutölur á Evrusvæðinu fyrir septembermánuð voru birtar í morgun og mældist tólf mánaða verðbólgan 1,8%. Það er undir 2% markmiðum Evrópska seðlabankans. Vaxtaákvörðunardagur verður í Evrópu á fimmtudaginn í næstu viku. Fjárfestar búast við enn frekari vaxtahækkun á þessu ári, segir greiningardeildin.