Hagvöxtur í Bandaríkjunum mældist 2,2% á fyrstu þremur mánuðum ársins. Til samanburðar var hann 3,0% á fjórða ársfjórðungi í fyrra, samkvæmt upplýsingum bandaríska efnahagsráðuneytisins sem birtar voru í dag. Þetta er undir væntingum. Í netútgáfu bandaríska dagblaðsins Los Angeles Times segir að meðalspá greinenda hafi hljóðað upp á 2,6% hagvöxt og meira vestra á fjórðungnum. Bandaríski seðlabankinn spáir því að hagvöxtur verði á bilinu 2,4 til 2,9% á árinu öllu.

Það sem dregur úr hagvexti eru samdráttur í fjárfestingum fyrirtækja og lélegri birgðastaða en áður auk aðhaldsaðgerða ríkisins.

Hagvaxtartölur í Bandaríkjunum eru að stórum hluta knúnar áfram að vexti í einkaneyslu. Hún jókst um 2,9% á fjórðungnum og lá að mestu leyti í góðri sölu á bílum. Kaup fyrirtækja á tækjabúnaði, vörum og þjónustu jókst hins vegar aðeins um 1,7% á milli mælinga og er það nánast hænuskref við hliðina á 7,5% vexti í fjárfestingum fyrirtækja á milli fjórðunga á fjórða ársfjórðungi í fyrra.