Hagvöxtur mældist 0,5% í Bretlandi á þriðja ársfjórðungi. Þetta er 0,2 prósentustigum yfir væntingum, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar. Til samanburðar mældist 0,4% hagvöxtur þar í landi á fyrsta ársfjórðungi en 0,1% samdráttur á öðrum fjórðungi.

Vöxtur í þjónustugreinum upp á 0,7% og 0,5% framleiðsluaukning vógu upp á móti 0,6% samdrætti í byggingariðnaði og drógu heildina upp, samkvæmt AP-fréttastofunni sem segir þetta jákvæðar fréttir fyrir Breta sem sligaðir eru af hárri verðbólgu, miklu atvinnuleysi og varfærnum neytendum sem haldi að sér höndum.

Fréttastofan hermir að þrátt fyrir að hagvaxtartölur séu yfir væntingum hafi greinendur vara á sér, ekki síst vegna óvissu í efnahagsmálum á evrusvæðinu.