Hagvöxtur í Tyrklandi var öflugur í fyrra og mældist meira en sex prósent eða rúmu prósentustigi meiri en spár gerðu ráð fyrir. Þetta er fimmta árið í röð sem hagvöxtur reynist kröftugur og hagkerfið er að ganga í gegnum lengsta hagvaxtarskeið frá upphafi áttunda áratugar nýliðinnar aldar. Á þessu hagvaxtarskeiði hefur hagkerfið vaxið samanlagt um fjörutíu prósent.

Í kjölfar fjármálakreppunnar sem reið yfir landið árið 2001 hafa verið gerðar miklar umbætur á hagkerfinu sem hafa meðal annars skilað sér í mikilli aukningu þjóðartekna á mann síðan þá. Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra landsins, segir að stefna beri á að þjóðartekjur á mann verði komnar í tíu þúsund Bandaríkjadali á næstu fimm árum. Í fyrra voru þær tæplega 5.500 dalir. Ríkisstjórn Erdogan hefur lagt mikla áherslu á að hrinda einkavæðingaráformum í framkvæmd og fella niður ríkisstyrki. Stöðugleiki í hagkerfinu og í stjórnmálalífinu hefur gert að það verkum að bein erlend fjárfesting hefur aukist mikið.

Áhættumerki eru hinsvegar á lofti vegna mikillar þenslu, verðbólgu og hárra vaxta. Stýrivextir seðlabankans eru 17,5% og verðbólga er rétt yfir 10%. Þetta þýðir að raunvextir eru mjög háir og gæti það haft þau áhrif að tyrkneska líran sé ofmetin. Orðrómur er um spennu á milli stjórnenda seðlabanka landsins og ríkisstjórnarinnar um peningamálastefnuna en sérfræðingar telja hins vegar ólíklegt að vextir verði lækkaðir á næstunni. Gengið verður til þingkosninga í Tyrklandi í haust.