Hagvöxtur mældist í Grikklandi á öðrum ársfjórðungi og nam hann 0,8% samkvæmt opinberum tölum. BBC News greinir frá þessu.

Óhætt er að segja að tölurnar hafi komið á óvart en flestir bjuggust við samdrætti í landinu á tímabilinu. Áður en tölurnar voru birtar höfðu greiningaraðilar gert ráð fyrir að gríska hagkerfið myndi dragast saman um 2,1 til 2,3% á þessu ári. Nú er hins vegar mögulegt að samdrátturinn verði minni en 2%.

Að sögn Nikos Magginas hjá Seðlabanka Grikklands voru það nokkrir þættir sem hjálpuðu til við vöxtinn. Þannig hefði meira líf verið í einkaneyslu, framleiðslu og ferðaþjónustu en búist var við.

Grísk stjórnvöld komust að samkomulagi við alþjóðlega lánveitendur í byrjun vikunnar, en það felur í sér 86 milljarða evra neyðarlán til Grikklands til þriggja ára. Er vonast til þess að gríska þingið samþykki lántökuna fyrir lok vikunnar.