Hagvöxtur mældist 1,5% á fyrsta ársfjórðungi í Japan. Til samanburðar mældist aðeins 0,1% hagvöxtur þar í landi á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Aðrar eins tölur hafa ekki sést í Japan í tæp þrjú ár. Þá er þetta talsvert umfram væntingar en spár hljóðuðu upp á 1% hagvöxt.

Fram kemur í umfjöllun breska ríkisútvarpsins ( BBC ) að 2,1% vöxtur í einkaneyslu hafi keyrt efnahagslífið áfram auk þess sem fjárfesting fyrirtækja hafi aukist um 4,9% sem var tvöfalt meira en spáð var.

BBC segir hagfræðinga í Japan vara við of mikilli bjartsýni enda megi búast við því að hækkun á söluskatti muni draga úr einkaneyslu á nýjan leik.