Vöxturinn í hagkerfi Kanada er hægur um þessar mundir og hefur seðlabanki landsins fært niður hagspá sína. Nú er gert ráð fyrir 2% hagvexti í Kanada á árinu í stað 2,3% eins og áður var gert ráð fyrir. Efnahagslífið kemst ekki á rétt ról fyrr en eftir mitt næsta ár, samkvæmt hagspá kanadíska seðlabankans. Hagvöxtur í Kanada hefur ekki verið hægari síðan árið 2009.

Í frétt Bloomberg segir að verðbólga hafi ekki verið minni í Kanada síðan árið 2009 og smásala hrundi í desember síðastliðnum, sem þykir benda til þess að hagkerfið eigi í erfiðleikum með að rífa sig upp úr lægðinni sem það er í núna.

Dregið hefur úr útgjöldum heimila og fyrirtækja og útflutningsfyrirtæki eiga í erfiðleikum með að selja vörur sínar erlendis.