Hagvöxtur í Kína nam 7% á öðrum ársfjórðungi samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í nótt. Vöxturinn var meiri en sérfræðingar höfðu búist við en þeir gerðu ráð fyrir 6,8% vexti á tímabilinu samkvæmt frétt Wall Street Journal .

Sheng Laiyun, talsmaður hagstofunnar í Kína, segir ýmis jákvæð teikn á lofti í kínversku efnahagslífi sem hafi náð ákveðnum stöðugleika og útlit sé fyrir enn betri horfur á næstunni.

Lengi hafa verið uppi grunsemdir um að kínverska hagstofan fegri tölur til þess að láta stöðu landsins líta betur út og kunna þessi tíðindi að ýta undir slíkar vangaveltur. Laiyun segir hins vegar að slíkt sé af og frá og stofnunin hafi gætt fyllsta hlutleysis við úrvinnslu gagnanna.