Hagvöxtur á kínverska sjálfstjórnarsvæðinu Makaó mældist neikvæður um 17,2% á síðasta ársfjórðungi samkvæmt frétt CNN . Efnahagsþrengingarnar eru raktar til mikilla erfiðleika í rekstri spilavíta, en hagkerfi Makaó, sem hefur svipaða stöðu gagnvart Kína eins og Hong Kong, byggist að miklu leyti á þeim iðnaði. Um 80% af tekjum stjórnvalda borgríkisins koma beint frá spilavítum og tekjur spilavítageirans í Makaó eru um sjö sinnum meiri en þess í Las Vegas. Hluti þeirra tekna sem ríkið innheimtir af spilavítum hefur hingað til verið greiddur beint til íbúa ríkisins. Sveiflur í spilavítaiðnaði hafa því talsverð bein áhrif á pyngju Makaó-búa.

Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir hafa stjórnvöld í Makaó ekki gert mikið til að fjölga stoðum efnahagslífsins í borgríkinu. Nú hefur herferð kínverskra stjórnvalda gegn spillingu þar í landi dregið mikið úr eftirspurn eftir þjónustu spilavíta í Makaó, en auk þess er nýlegt bann gegn reykingum í makaóskum spilavítum talið eiga sinn þátt í samdrættinum.

Matsfyrirtækið Fitch spáir því að tekjur makaóska spilavítageirans byrji aftur að vaxa á seinni helmingi ársins. Til lengri tíma litið er talið að Makaó þurfi að styrkja samkeppnisforskot sitt gagnvart áfangastöðum í Kambódíu, Víetnam og Filippseyjum, en í þessum löndum er hart unnið að því að markaðssetja áfangastaði fyrir kínverska fjárhættuspilara.