Á öðrum ársfjórðungi 2006 óx þýska hagkerfið um 0,9% frá fyrri ársfjórðungi samanborið við 0,7% vöxt á þeim fyrsta, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Fjárfesting í byggingariðnaði jókst meira en þekkst hefur í áratug og leiddi það hagvöxtinn. Ef áætlanir ganga eftir má búast við 2% vexti á þessu ári sem er hið mesta frá árinu 2000. Til að mynda var vöxturinn aðeins 1% árið 2005.

Samt sem áður er óttast að heldur dragi úr vexti á næsta ári vegna gengishækkunar evrunnar, hærri vaxta og skattahækkana. Töluvert hægði á vexti útflutnings nú á öðrum ársfjórðungi eftir töluverðan vöxt (4,9%) á þeim fyrsta. ZEWog IFO væntingavísitölurnar, sem taldar eru meðal helstu vísbendinga um efnahagsástandið, gefa einnig til kynna að um hægist á næstunni, segir greiningardeildin.