Hagvöxtur í Írlandi á árinu 2015 var 7,8%. Hann hefur ekki verið svo hár í fimmtán ár þarlendis. Hagkerfið hefur sannarlega tekið við sér eftir erfiða kreppu, en árin 2008 og 2009 dróst það saman um 2,2% og 5,6%.

Á síðasta ársfjórðungi 2015 var hagvöxturinn 9,2%, og einkaneysla jókst um 3,1% frá árinu á undan. Þá hélst vöxturinn í hendur við samdrátt í útgjöldum ríkisins og 28% hækkun fjármagnsmyndunar.

Þó gætu hættur steðjað að þessum nýfundna vexti - en eins og þeir sem hafa fylgst með Brexit-umræðunni svokölluðu vita gæti stefnt í að Bretland gangi úr Evrópusambandinu. Þar eð Bretar eru helstu viðskiptavinir Íra gæti verslunarsamband þeirra tekið stakkaskiptum ef þeir ganga úr ESB.