Verg landsframleiðsla innan aðildarríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) jókst um 0,5% á fjórða ársfjórðungi síðasta árs, borið saman við 0,9% aukningu á þriðja fjórðungi árið 2007. Þetta kemur fram í nýjum bráðabirgðahagtölum sem OECD birti í dag.

Í Bandaríkjunum mældist aðeins 0,2% hagvöxtur á fjórðungnum, töluvert minna heldur en í ársfjórðungnum þar á undan, þegar hagvöxtur jókst um 1,2%. Á evrusvæðinu dróst hagvöxtur saman um helming og mældist 0,4% eftir að hafa aukist um 0,8% á þriðja ársfjórðungi síðasta árs. Verg landsframleiðsla jókst lítillega í Japan á milli ársfjórðunga og mældist 0,9% á síðasta fjórðungi ársins.

Á meðal sjö stærstu ríkja OECD mældist hagvöxtur minnstur í Bandaríkjunum (0,2%) á meðan hann jókst mest í Japan (0,9%).

Hagvöxtur á ársgrundvelli – fjórði ársfjórðungur síðasta árs borin saman við sama tíma árið 2006 – mældist mestur í Bretlandi (2,9%) og lægstur í Þýskalandi og Japan (1,8%).

Hagvöxtur á ársgrundvelli á meðal aðildarríkja OECD nam 2,6%. Hlutur bandaríska hagkerfisins í þeim vexti nam 0,9 prósentustigum, á meðan Japan lagði til 0,2 prósentustig, evrusvæðið 0,6% prósentustig og önnur aðildarríki OECD samtals 0,9 prósentustig.