Landsframleiðsla jókst að raungildi um 7,5% samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar yfir þjóðhagsreikninga á árinu 2005 sem birtust í hagtíðindum í dag.

Samkvæmt bráðabirgðatölum er hagvöxtur talsvert meiri en áður var haldið en í áætlun frá því í mars síðastliðnum var talið að hagvöxtur á árinu 2005 hafi verið 5,5%. Samkvæmt tilkynningu Hagstofunnar skýrist
munurinn einkum af tekjum af útfluttri þjónustu en þær reyndust tæpum 10 milljörðum meiri en áður var talið.

Þjóðartekjur á árinu 2005 jukust nokkru meira en landsframleiðslan eða um 8,6%, vegna betri viðskiptakjara en á fyrra ári og minni nettó vaxta- og arðgreiðslna til útlanda.

Viðskiptahallinn aldrei verið meiri

Hagvöxtur síðasta árs einkenndist af mikilli einkenndist fjárfestingu, sem jókst um 37,6%, og einkaneyslu sem jókst um 12,3%. Þjóðarútgjöld jukust því langt umfram landsframleiðslu eða um 15,8%. Þetta leiddi til viðskiptahalla sem nam um 161 milljarði króna, 15,9% af landsframleiðslu, og hefur hann aldrei verið
meiri. Árið áður varð hallinn 9,8% af landsframleiðslu.

Einkaneysla sem hlutfall af landsframleiðslu varð 59,7% á liðnu ár og hefur hlutfallið ekki verið hærra frá því árið 2000. Í sögulegu samhengi er þetta hlutfall hátt því undanfarinn aldarfjórðung hefur það aðeins í sjö skipti verið hærra. Samneyslan sem hlutfall af landsframleiðslu var 24,4% sem er svipað og árið áður.

Hagstofan birtir nú bráðabirgðatölur yfir þjóðhagsreikninga á árinu 2005 og koma þær í stað áætlana frá því í mars síðastliðnum. Bráðabirgðatölurnar sýna að landsframleiðsla á liðnu ári varð rúmlega 1.012 milljarðar króna en það er um 97 milljarða eða 10,6% hærri fjárhæð en árið áður. Samhliða þessum bráðabirgðatölum hafa niðurstöður um hagvöxt fyrri ára breyst nokkuð eftir því sem fyllri heimildir liggja fyrir. Hagvöxtur á árinu 2004 er nú talinn hafa orðið 7,7% í stað 8,2% eins og bráðabirgðatölur í mars sýndu.