*

miðvikudagur, 27. október 2021
Erlent 15. júlí 2019 12:09

Hagvöxtur Kína ekki lægri í 30 ár

Þrátt fyrir „lakan“ 6,2% hagvöxt á öðrum ársfjórðungi vegna tollastríðsins við Bandaríkin var einkaneysla kröftug.

Ritstjórn
epa

Hagvöxtur í Kína mældist 6,2% á öðrum ársfjórðungi, og hefur ekki verið jafn hægur í tæp 30 ár. Financial Times segir tollastríðið við Bandaríkin helstu ástæðuna.

Sumir hagfræðingar höfðu spáð enn hægari vexti, en kröftug einkaneysla vegur á móti högginu í útflutningi vegna hinna bandarísku tolla. Kínversk yfirvöld hafa það sem af er ári lækkað skatta og vexti, auk aðgerða til að ýta undir fjárfestingu.

CSI-300 hlutabréfavísitalan hækkaði um 0,9% við fréttirnar, eftir að hafa lækkað nokkuð í aðdraganda þeirra.

Bandaríkin og Kína náðu loks saman um hlé á hækkanir tolla í síðasta mánuði, eftir að hafa hækkað og sett nýja tolla á innflutning frá hvort öðru fyrr á árinu.

Kínverskar hagtölur, og þá sérstaklega hagvöxtur, eru þekktar fyrir að vera vel „pússaðar“ af hagstofu landsins, í pólitískum tilgangi. Hinsvegar er erfitt að skálda tölur um hagþróun til lengri tíma, þar sem skáldskapurinn myndi sífellt fjarlægjast raunveruleikann, og því er gjarnan litið til opinberu talnanna sem viðmið um gang mála þrátt fyrir ágalla hennar.

Stikkorð: Kína Kína