Breska hagkerfið dróst saman um 0,3% á fjórða ársfjórðungi í fyrra. Þetta er ögn meira en væntingar voru um en gert hafði verið ráð fyrir 0,2% samdrætti. Heildarhagvöxtur ársins nam 0,7% í fyrra, samkvæmt upplýsingum bresku hagstofunnar.

Samdrátturinn skýrist öðru fremur af því að landsmenn í Bretlandi hafa haldið að sér höndum og dregið úr neyslu.

AP-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum að gert sé ráð fyrir því að hagkerfið rétti úr kútnum eftir því sem líði á árið. Seðlabankastjórinn Mervyn King varar hins vegar við sveiflum í efnahagslífinu.

Haft er eftir Howard Archer, aðalhagfræðingi hjá IHS Global Insight, að búast megi við 0,3% hagvexti á þessum ársfjórðungi.