Hagvöxtur mældist 0,8% í Bretlandi á fyrsta ársfjórðungi. Fyrir ári síðan mældist 3,1% hagvöxtur í Bretlandi. Í breska dagblaðinu Financial Times segir um hagtölurnar að miðað við fyrstu tölur, jafnvel þótt þær séu undir væntingum, aukist líkurnar á því að landsframleiðsla verði meiri nú í sumar en í fyrra.

Í frétt Financial Times segir jafnframt að framleiðsluaukning og framkvæmdir hafi keyrt hagvöxt áfram á fjórðungnum og hafi það vegið upp á móti slæmu veðri sem alla jafna hafi neikvæð áhrif á hagkerfið.

Haft er eftir aðalhagfræðingi Deloitte í Bretlandi að staðan í bresku hagkerfi minni á söguna af Gullbrá og björnunum þremur en hagkerfið sé hvorki of heitt né of kalt. Þá sé verðbólga helmingi lægri en fyrir ári og hafi jafn lágar tölur ekki sést í fimm ár.