Hagvöxtur mældist 2,5% í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum upplýsingum bandaríska viðskiptaráðuneytisins. Þetta er rétt undir spám en almennt hafði verið reiknað með allt að 2,8% hagvexti á fjórðungnum. Bandaríska dagblaðið The Wall Street Journal segir um málið á vef sínum að tölurnar sýna að fyrirtæki landsins hafi staðið sterkari fótum en útlit var fyrir. Búist er við að seinni hluti ársins verði eitthvað brösóttari og bent á að spár hljóði upp á um og undir 2% hagvöxt á yfirstandandi ársfjórðungi.

Einkaneysla er stærsti liðurinn í hagvaxtartölum vestanhafs. Hún jókst um 1,8% á ársgrundvelli á móti samdrætti hjá hinum opinbera, samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins.

Wall Street Journal segir þetta lítinn vöxt í einkaneyslu skýrast af því að neytendur hafi haldið að sér höndum þrátt fyrir að fasteignaverð hafi hækkað. Skýringa sé helst að leita í því að laun hafi hækkað fremur lítið og aðgangi að lánsfjármagni sé takmarkað.