Hagvöxtur mældist 3,5% í Póllandi á fyrstu þremur mánuðum ársins. Þrátt fyrir örlítinn samdrátt á milli ára þá er þetta með hæstu hagvaxtartölum sem sjást á meginlandi Evrópu um þessar mundir. Hagvöxtur þar í landi nam 4,1% í fyrra. Til samanburðar var 3,1% hagvöxtur hér á landi í fyrra.

Eftir því sem AP-fréttastofan hermir er Pólland eina landið innan aðildarríkja Evrópusambandsins sem sneiddi fram hjá kreppunni. Gert er ráð fyrir því að Pólverjar muni standa af sér áganginn á evrusvæðinu og standa uppi með á bilinu 2,5 til 3% hagvöxt á þessu ári.

Pólverjar hafa þó ekki sloppið algjörlega undan áföllum en gengi zlotysins hefur fallið mikið í verði gangvart öðrum gjaldmiðlum og er atvinnuleysi með því mesta sem sést innan Evrópusambandsins, 12,9% í síðasta mánuði að viðbættri 4% verðbólgu.

Vöxtur í útflutningi hefur vegið á móti gengisfallinu enda pólskar vörur ódýrari en ella, að sögn AP-fréttastofunnar.