Hagvöxtur mældist 0,1% á evrusvæðinu á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt upplýsingum Eurostat , hagstofu Evrópusambandsins. Þetta er nokkuð minna en á öðrum ársfjórðungi þegar hagvöxturinn nam 0,3%. Meðalsamdrátturinn á efnahagssvæðinu skýrist öðru fremur af minni landsframleiðslu í Frakklandi og á Ítalíu. Á sama tíma heldur þýska hagkerfið evruríkjunum uppi en þar mældist 0,3% hagvöxtur á fjórðungnum.

Hagtölurnar eru nokkuð undir væntingum en meðalspá Reuters-fréttastofunnar hljóðaði upp á 0,2% hagvöxt á evrusvæðinu á þriðja ársfjórðungi. Staðan er þrátt fyrir þetta talsvert betri en á þriðja ársfjórðungi í fyrra þegar landsframleiðsla á evrusvæðinu dróst saman um 0,4%.

Nokkur munur er á stöðunni innan einstakra evruríkja. Sem dæmi mældist 0,2% hagvöxtur í Portúgal á þriðja ársfjórðungi og 0,1% hagvöxtur á Spáni. Batinn er talsverður á Spáni en þar hefur hagvöxtur ekki mælst í tvö ár.