Hagvöxtur mældist 1,8% í Bandaríkjunum á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er 0,6 prósentustigum verri niðurstaða en búist var við en bráðabirgðatölur gerðu ráð fyrir 2,4% hagvexti á tímabilinu, samkvæmt umfjöllun The Washington Post .

Þá er þetta ekki í samræmi við væntingar enda búist við að spár gengju eftir. Þetta er hins vegar öllu meiri kraftur en undir lok síðasta árs en hagvöxtur mældist aðeins 0,4% á fjórða ársfjórðungi í Bandaríkjunum í fyrra.

Samdráttur í einkaneyslu og útflutningi og minni fjárfesting í atvinnulífinu skýra málið að mestu leyti. Mestu munar þó um samdrátt í einkaneyslu sem er stærsti liðurinn í hagvaxtartölum vestra.