Hagvöxtur á síðasta ári var lítillega yfir síðustu hagvaxtarspá Seðlabankans en talsvert yfir fyrri spá. Í síðustu Peningamálum bankans segir að áætlað sé að hagvöxtur í fyrra hafi verið 3% í stað 2,3% eins og spáin hljóðaði upp þegar Peningamál komu út í nóvember í fyrra. Hagstofan greindi frá því í morgun að hagvöxtur hafi mælst 3,3% í fyrra . Þar af var hagvöxtur 3,8% á fjórða ársfjórðungi. Annar eins hagvöxtur hefur ekki sést síðan árið 2007 en þá mældist hann 6%.

Spá Seðlabankans eins og hún birtist í síðustu Peningamálum er nokkuð samstíga niðurstöðu Hagstofunnar um forsendur hagvaxtarins, sem var keyrður áfram að mun hagstæðari framlagi utanríkisviðskipta.

Seðlabankinn segir efnahagshorfur litast mjög af áhrifum fyrirhugaðra aðgerða stjórnvalda til lækkunar húsnæðisskulda og annarra aðgerða stjórnvalda til að örva eftirspurn. Skuldalækkunin geti aukið einkaneyslu töluvert á næstu misserum. Aukin eftirspurn mun jafnframt koma fram í auknum innflutningi og draga úr þjóðhagslegum sparnaði og viðskiptaafgangi. Hagvaxtaráhrif aðgerðanna verði því minni en áhrifin á innlenda eftirspurn.

Seðlabankinn gerir því ráð fyrir 2,6% hagvexti á þessu ári eftir 3,3% í fyrra, 3,7% hagvexti á næsta ári og 3% hagvexti árið 2016.